Veðrið á Bakkanum

https://www.windfinder.com/forecast/eyrarbakki

laugardagur, 26. apríl 2025

Gjaldskyldu komið á Ráðhúsbílastæði.

Unnið er að því að koma upp myndavélakerfi fyrir gjaldskyldu á bílastæðinu við Ráðhúsið. Verkefnið er í samstarfi við Parki. Mjög erfitt er fyrir viðskiptavini að fá stæði þar sem bílastæðum hefur fækkað umtalsvert á svæðinu vegna aukins byggingamagns.

Framkvæmdir við Barnaskólann

Um þessar mundir er verið að ljúka við drenun meðfram sökkli gömlu skólabyggingarinnar. það er liður í endurbótum á skólahúsinu sem var lokað eftir að mygla kom þar upp fyrir nokkrum árum. Húsið verður síðan notað undir aðra starfsemi þegar endurbótum lýkur, en áætlað er að það verði gert í áföngum næstu tvö til þrjú árin.

Framkvæmdir hjá Olís Eyrarbakka

Undanfarið hafa staðið yfir framkvæmdir við Olís sjoppuna Bakinn. Verið er að endurnýja olíutankanna og hefur olía og bensín verið afgreitt úr bráðabirgða tanki á meðan framkvæmdir hafa staðið yfir.

mánudagur, 6. janúar 2025

Eyrbekkingar kvaddir á árinu 2024

Anna Esther Ævar Jónsdóttir 87 ára frá Grindavík. Dóttir Gróu Jakobínu Jakobsdóttir í Vatnagarði Eyrarbakka og Jóns Erlingssonar er fórst með m/s Heklu 1941 *(þýsk­ur kaf­bát­ur, U564, grandaði flutn­inga­skip­inu sem var á leið sinni frá Íslandi til Halifax í Kan­ada.)

Guðrún Thorarensen 90 ára frá Þorvaldseyri Eyrarbakka Ólafsdóttir og Jennýar þar á bæ. Maður hennar heitinn Hörður Thorarensen.

Haukur Guðlaugsson 93 ára Söngmálastjóri þjóðkirkjunnar sonur Guðlaugs kaupmanns og Ingibjargar á Sjónarhóli.

Kristín Vilhjálmsdóttir 83 ára frá Traðarhúsi Eyrarbakka dóttir Vilhjálms Einarssonar og Sigríðar Sigurðardóttur þar á bæ.

Rögnvaldur Bjarkar Árelíusson 79 ára frá Hvoli Eyrarbakka sonur sr Árelíusar Níelssonar og Ingibjargar Þórarinsdóttur þar á bæ.

Sigurður Kristinsson 59 ára gítarleikari í Sniglabandinu frá Vestmannaeyjum en á Eyrarbakka eftir gos. Sonur Krist­inns Karls­sonar og Bryn­dísar Sig­urðardótt­ur.

Skúli Æ Steinsson 82 ára tamningamaður og hrossaræktandi frá Vatnagarði Eyrarbakka sonur Gróu Jakopsdóttir og Steins Einarssonar þar á bæ. Skúli lést af slysförum. 

Þuríður Widnes Gunnarsdóttir 63 ára dóttir Gunnars Olsen vegaverkstjóra Péturssonar frá Widnes í Noregi og Ingu Kristínar Guðjónsdóttur frá Kaldbak Eyrarbakka. Eftirfarandi eiginmaður Þuríðar er Friðrik Sigurjónsson. 

laugardagur, 2. nóvember 2024

Barnaskólinn á Eyrarbakka

Í byrjun árs 2022 var kennslu hætt í gamla barnaskólahúsinu á Eyrarbakka eftir að mygla greindist í húsnæðinu. Nú er unnið að áætlun um að gera við húsnæðið sem er að hluta til friðað og þar að auki merkur menningararfur þorpsins. Á heimasíðu Árborgar er hægt að leggja inn hugmyndir um þá starfsemi sem gæti verið í Húsinu í náinni framtíð.

sunnudagur, 27. október 2024

Sundvörðurnar fornu

Sundin á Eyrarbakka eru einkum þrjú. Þ.e. "Rifsós" sem er austast (Mundakotsvarða). það var oft ófært þegar lágsjávað var, og einhver alda úti fyrir. Næst er sund fyrir vestan þorpið, sem nefnist "Einarshafnarsund" og  oft var notað sem þrautalending á Eyrarbakka, en þar urðu eigi að síður sjóslys, þegar mjög lágsjávað var, eða undir og um stórstraumsfjöru. Þar fyrir vestan er sund er heitir "Bússa" eða "Bússusund", (Sundvörðurnar vestast) en var lítið notað fyrir fiskibáta, nema ef sérstaklega stóð á ládeyðu, því ef brim var, gekk hafaldan að nokkru leyti á það flatt eða yfir það, en þetta sund er einna dýpst og breiðast, og stefna þess þannig, að aldan gekk yfir það. Það var notað til innsiglingar verslunarskipana (Skonnorturnar voru kallaðar "Bússur") meðan þau komu til Eyrarbakka, og aldrei nema að brimlaus sjór væri. Eftir að vélbátaútgerð hófst var það notað í meira mæli og urðu þar stundum skæð sjóslys.

Heimild: Sigurður Þorsteinsson í Sjómannablaðinu Víkingi 1.tbl.1950

Sundvörðurnar voru endurbyggðar á síðasta áratug síðustu aldar. 

Þeir kölluðu það "Landflugur"

Það dró heldur betur til tíðinda á Bakkanum í byrjun mars 1950. Þann 1. og 2. mars hafði verið foráttubrim á Eyrarbakka með strekkings sunnanátt. Urðu menn þess þá varir að fisk var farið að reka í talsverðu magni á fjörurnar. Þegar farið var að gefa þessum reka frekari gætur kom það í ljós að lygnan inn af brimgarðinum var vaðandi í fiski sem óð lifandi á land og menn gogguðu hann hreinlega í fjöruborðinu. "Öfluðu" menn nálega  200 rígaþorska án þess að setja út bát eða veiðarfæri. Bakkamenn kölluðu þetta "landaflugur" og sennilegast þótti að fiskitorfan hafi verið á eftir síli sem skolaði inn fyrir brimgarðinn. Ekki er vitað til þess að sambærilegt atvik hafi orðið síðan.


Heimild: Brim.123.is