þriðjudagur, 19. september 2023

Endurbætur á tjaldsvæðinu

Í sumar fóru fram nokkrar endurbætur á aðstöðunni við tjaldsvæðið á Eyrarbakka, smíðaður var pallur við aðstöðuhúsið sem gerir aðkomuna mun vistlegri fyrir gesti tjaldsvæðisins. Það er björgunarsveitin Björg sem rekur tjaldsvæðið. 


föstudagur, 15. september 2023

LEIKFÉLAG EYRARBAKKA ENDURVAKIÐ

 

Leikfélag Eyrarbakka var stofnað 1943 og núna nýverið tók hópur sig saman um að endurvekja félagið af löngum dvala. Það voru þær Hera Fjord, Hulda Ólafsdóttir og Sella Páls sem boðuðu til stofnfundar í Alpan húsinu, sal Byggðasafns Árnesinga þann 22. ágúst síðastliðinn. Félagið hefur síðan haldið leiklistarnámskeið fyrir áhugasama.

laugardagur, 24. júní 2023

Hin árlega Jónsmessa haldin hátíðleg á Eyrarbakka

Jónsmessuhátíðin var haldin á Eyrarbakka núna um helgina. Dagskrá var bæði á föstudag og laugadag og margt til skemmtunar báða daganna. Veðurguðirnir voru til friðs fyrri part dags en þegar á leið daginn gátu þeir ekki lengur haldið aftur af sér og demdu yfir rigningunni ein og þeim er tamast núorðið. Því er ólíklegt að af verði sólstöðubrennunni í fjörunni. 

 Á myndinni má sjá hátíðarstemmingu við Sjóminjasafnið, vælubíla og víkingatjald.

laugardagur, 29. apríl 2023

Gamla skólastofan á förum

 Gamla skólastofan á Eyrarbakka verður fjarlægð á næstu dögum. Hlutverki hennar sem kennsluhúsnæði lauk á síðasta ári eftir að mygla greindist í húsnæði skólans.

Árið 1973 í kjölfar Vestmannaeyja gosins fjölgaði börnum í Barnaskólanum á Eyrarbakka þegar um 10 - 12 fjölskyldur settust þar að, sum tímabundið en önnur varanlega. Viðlagasjóður útvegaði færanlega skólastofu sem stóð fyrst norðan við skólabygginguna en var svo flutt suður fyrir þegar skólahúsið var stækkað seint á 8.áratugnum. Skólastofan hefur verið í notkun allt þar til á síðasta ári. Eftir að hafið var að byggja nýju skólastofurnar ákvað sveitarfélagið að selja þessa gömlu skólastofu sem fær nýtt hlutverk vestur í Stykkishólmi og mun þjóna landbúnaðarstarfsemi þar um slóðir.

Heimild: Brim.123.is 


mánudagur, 24. apríl 2023

Eyrbekkingar kvaddir 2022

 Elín Sigurgeirsdóttir (Ella) í Björgvin. 100 ára. Ættuð frá Hreiðurborg í Flóa.

Kjartan Ingi Sveinsson 47 ára. Hann varð bráðkvaddur á sjúkrahúsi Selfossi. Foreldrar hans voru Sveinn Magnússon (Denni) og Rannveig Sverrisdóttir. Denni lést á sjúkrahúsi Selfossi 2006

Óskar Gústaf Ingjaldur Ólafsson 39 ára. Hann lést af krabbameini á sjúkrahúsi Selfossi. 

Ragnheiður Telma Björnsdóttir 49 ára. Hún lést á ferðalagi í Portúgal. Ragnheiður var ættuð úr Hafnarfirði. 

Siggeir (Geiri) Ingólfsson 69 ára. Geiri var Eybekkingum að góðu kunnur fyrir margskonar félagsstörf. Einn af stofnendum Skógræktarfélags Eyrarbakka, Staðarhaldari á Stað og margt fleira tók hann sér fyrir hendur í þágu þorpsins. Geiri var ættaður frá Seli á Stokkseyri. Hann lést á heilbrigðisstofnun Vesturlands, enn hann var þá fluttur vestur. Geiri hafði lengi glímt við krabbamein. Hann var giftur Regínu Guðjónsdóttir fra Steinsbæ sem lést á sjúkrahúsi Selfossi 2014.

þriðjudagur, 18. apríl 2023

Uppsagnir hjá Sveitarfélaginu Árborg

 


Í dag var 57 starfsmönnum sagt upp störfum hjá Sveitarfélaginu Árborg vegna fjárhagsvanda sem sveitarfélagið hefur ratað í vegna mikillar fjölgunar íbúa og uppbyggingu innviða á síðustu árum. Skuldir sveitarfélagsins eru miklar og uppsagnirnar einn liður í þeirri viðleitni að rétta við fjárhaginn, ásamt sölu eigna og lóða.

miðvikudagur, 12. apríl 2023

Sveitarfélagið Árborg í fjárhagsvanda


Sveitarfélagið Árborg skuldar 28 miljarða í kjölfar fordæmalausrar fjölgunar íbúa á undanförnum árum og uppbyggingu innviða sem því fylgir. Þetta kom fram í fréttum RUV í gær. Boðað hefur verið til íbúafundar í dag vegna stöðunar sem komin er upp hjá Sveitarfélaginu. Búist er við miklum hagræðingaraðgerðum á næstu misserum.