Veðrið á Bakkanum

https://www.windfinder.com/forecast/eyrarbakki

föstudagur, 10. nóvember 2023

Eyrarbakki: Jörð titrar og skelfur

Allmikið um jarðskjálfta á suðurlandsundirlendinu í kjölfar jarðskjálftahrina á Reykjanesi, þar sem búist er við eldsumbrotum á hverri stundu. Hér á Bakkanum hefur orðið vel vart við nokkra þeirra stærstu sem eiga upptök á suðvestur hluta landsins

þriðjudagur, 7. nóvember 2023

Skrímsli sást á Eyrarbakka-Brot úr sögunni

19. Nóvember 1594 gerði mikinn storm og segir svo í Skarðsannál: þverraði Hvítá í tveim stöðum hjá Áhrauni á Skeiðum, og í Flóa austan til með landinu, hjá Brúnastöðum, nær þvert yfir um. Þar var gengið þurrum fótum í einn hólma, sem áður var ófært, og teknar þaðan hríslur til merkis. Undruðust þetta menn, að þeir tveir kaflar skyldu þorna, þvi að áin var að sjá sem sjó annarsstaðar með rokviðri. Í þessum sömu stormum var brimgangur ógurlegur. Sást þá á Eyrarbakka, á Háeyri og skúmsstöðum skrímsl; það var ferfætt og hábeinótt, selhært, hafði annaðhvort svo sem hundshöfuð, eða hérahöfuð, en eyru svo stór sem ileppar lágu þau á hrygginn aftur; bolurinn var svo sem folaldskroppur og nokkuð styttri, hvit gjörð var yfir um það hjá bógunum, en var grátt eða svo sem móálótt fram; rófa var löng, kleppur sem á leónshala á endanum, frátt sem hundur; sást á kveldin. – Lýsingin á skrímslinu á ágætlega vel við asna eða múlasna, en hvaðan kom skepnan? Leiða má líkum að því að skip hafi farist í veðri þessu og meðal farm skipsins hafi þetta dýr verið og náð heilu og höldnu til lands.

sunnudagur, 5. nóvember 2023

Brot úr sögunni- Nolsoy slysið.

Tvær Færeyskar skútur, sem voru að veiðum hér við land, fórust í stormi 7. mars 1934 með samtals 43 mönnum. Voru það skúturnar „Neptun" frá Vestmanhavn og „ Nolsoy" frá Þórshöfn. Þann 31. maí það ár rak lík hjá Stóra-Hrauni á Eyrarbakka og var talið að það hafi verið af matsveininum á  kútter „Nolsoy". Likið var óþekkjanlegt er  það fannst, en trúlofunarhringur, sem af tilviljun hafði tollað á fingri  hins  látna,  var  sendur til Færeyja og þektist. Hin látni hét Bernhard Henriksen og var frá Sandvági í Færeyjum. Hinn 21. maí 1936 kom minnisvarði með m/s. „Dronning Alexandrine", sem Færeyingar sendu og láta átti á leiði hans, en líkið var  jarðsett i  Eyrarbakkakirkjugarði og var vandað til  jarðarfararinnar eins og kostur var á. Með „Nolsoy" fórust alls 20 menn, bræður margir og feðgar, og eru nöfn  þeirra  allra  rituð á steininn, og eftirfarandi  erindi á  undirstöðu  hans:

Mugu  enn við sorg vit siga
kærum  vinum  her farval.
Góðandagin gleðiliga
tó í himli ljóða skal.

Auk Færeyinga, átti  þáverandi sendiherra Dana, Fontenay og  consul Jens Zimsen,  sinn þátt í að minnismerkinu yrði hingað komið, og  annaði  Zimsen bæði flutning  austur og sá  um, að því var komið fyrir á gröf  Bernhards Henriksens og var gengið frá því í  Eyrarbakkakirkjugarði þann 3.  júní 1936.
Auk Bernhards fórust með kútter Nolsoy: J. Henriksen, H.D. Hansen, V. Hansen, E. Hansen, M.Hansen, A.  Danberg, J. Olsen, M. Petersen, P. Poulsen, J.P. Petersen, M. Johansen, H. Leidesgaard, U.A. Johansen, M. Poulsen, J.G. Petersen, O.J. Jakopsen.


Heimild: Morgunbl.138 tbl 1934. Brot úr sögu Mykinesar

laugardagur, 4. nóvember 2023

Konurnar á EyrarbakkaÍ næstu viku kemur út Bókin "Konurnar á Eyrarbakka " eftir Jónínu Óskarsdóttir, en hún á ættir að rekja til Eyrarbakka en afi hennar var Guðfinnur Þórarinsson formaður frá Eyri er fórst með Sæfara ásamt sjö manna áhöfn í innsiglingunni á Eyrarbakka 5. apríl 1927. Amma hennar var Rannveig Jónsdóttur húsfreyju og verkakonu frá Litlu Háeyri á Eyrarbakka.

Bókin Konurnar á Eyrarbakka er bók sem lengi hefur verið beðið eftir

https://eyrarbakkakonur.com/ 
https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1850678/ 

Iðkar brimbretti í Þorlákshöfn og siglir heimsálfa á milli - RÚV.is

Dana Marlin býr á Eyrarbakka og er iðinn brimbrettaiðkandi í Þorlákshöfn.