sunnudagur, 27. nóvember 2022

Jólatréð tendrað

Kveikt var á Jólatrénu á Eyrarbakka í kvöld. Er það í 22. sinn sem jólatré er sett niður á flötina við Álfstétt. Tréð kemur frá húsagarði á Selfossi og er það gjöf frá gömlum Eyrbekking að sögn kunnugra.

miðvikudagur, 7. september 2022

Barnaskólinn fær nýjar útistofur

Unnið er hörðum höndum við fjórar nýjar útistofur fyrir Barnaskólann á Eyrarbakka sem eiga að vera tilbúnar í lok október. Eins og kunnugt er greindist mygla í aðalbyggingu Barnaskólans á Eyrarbakka og var fyrirhugað að flytja allt skólastarf til Stokksyrar, en af því varð ekki eftir kröftug mótmæli íbúa og foreldra á Eyrarbakka. Það var og vilji bæjaryfirvalda að halda skólastarfi í báðum byggðarlögum við sjávarsíðuna. 

Ljósið er að koma á Bakkann.

Ljósleiðarinn er byrjaður á framkvæmdum í þorpinu. Verið er að leggja ljósleiðarann í Háeyrarvallahverfi um þessar mundir og svo vestur eftir hverfum í hvert hús. Ljósleiðarinn hefur verið að framkvæma á Stokkseyri lungað úr sumrinu, en nú er komið að Bakkanum. 

mánudagur, 5. september 2022

Kirkjan krosslaus

Búið er að fjarlægja ljóskrossinn af kirkjuturninum, en ljósin í honum biluðu fyrir skömmu. 

Unnið að vegbótum á Bakkanum

Búið er að rífa upp ónýtt malbik á kaflanum frá Sjoppu og að Bræðraborg. Til stendur að endurnýja malbikið á þessum kafla.

sunnudagur, 4. september 2022

Huststillur eftir óblítt sumar

Sumarið hér syðra var heldur hryssingslegt og svalt. Vinda og úrkomusamt í meira lagi. Fyrstu daganna í september lék þó blíðan við sunnlendinga og leysti sumarið út með fallegum sólroða og stillum. Vonum að veðurguðirnir fari mildum höndum um mannfólkið næstu vikurnar.

Íbúðir eldri borgara endurnýjaðar.

Íbúðir eldri borgara í Grænumörk 1 voru endurnýjaðar í sumar. Öll ytri klæðning var endurnýjuð á öllum íbúðum. Einnig fengu nokkrar íbúðir í húsinu andlitsliftingu. Það var Vörðufell sem sá um framkvæmdir. Áætlað er að Grænamörk 3 fái sömu fegrunaraðgerð á næsta ári.