Veðrið á Bakkanum

https://www.windfinder.com/forecast/eyrarbakki

laugardagur, 29. apríl 2023

Gamla skólastofan á förum

 Gamla skólastofan á Eyrarbakka verður fjarlægð á næstu dögum. Hlutverki hennar sem kennsluhúsnæði lauk á síðasta ári eftir að mygla greindist í húsnæði skólans.

Árið 1973 í kjölfar Vestmannaeyja gosins fjölgaði börnum í Barnaskólanum á Eyrarbakka þegar um 10 - 12 fjölskyldur settust þar að, sum tímabundið en önnur varanlega. Viðlagasjóður útvegaði færanlega skólastofu sem stóð fyrst norðan við skólabygginguna en var svo flutt suður fyrir þegar skólahúsið var stækkað seint á 8.áratugnum. Skólastofan hefur verið í notkun allt þar til á síðasta ári. Eftir að hafið var að byggja nýju skólastofurnar ákvað sveitarfélagið að selja þessa gömlu skólastofu sem fær nýtt hlutverk vestur í Stykkishólmi og mun þjóna landbúnaðarstarfsemi þar um slóðir.

Heimild: Brim.123.is 


mánudagur, 24. apríl 2023

Eyrbekkingar kvaddir 2022

 Elín Sigurgeirsdóttir (Ella) í Björgvin. 100 ára. Ættuð frá Hreiðurborg í Flóa.

Kjartan Ingi Sveinsson 47 ára. Hann varð bráðkvaddur á sjúkrahúsi Selfossi. Foreldrar hans voru Sveinn Magnússon (Denni) og Rannveig Sverrisdóttir. Denni lést á sjúkrahúsi Selfossi 2006

Óskar Gústaf Ingjaldur Ólafsson 39 ára. Hann lést af krabbameini á sjúkrahúsi Selfossi. 

Ragnheiður Telma Björnsdóttir 49 ára. Hún lést á ferðalagi í Portúgal. Ragnheiður var ættuð úr Hafnarfirði. 

Siggeir (Geiri) Ingólfsson 69 ára. Geiri var Eybekkingum að góðu kunnur fyrir margskonar félagsstörf. Einn af stofnendum Skógræktarfélags Eyrarbakka, Staðarhaldari á Stað og margt fleira tók hann sér fyrir hendur í þágu þorpsins. Geiri var ættaður frá Seli á Stokkseyri. Hann lést á heilbrigðisstofnun Vesturlands, enn hann var þá fluttur vestur. Geiri hafði lengi glímt við krabbamein. Hann var giftur Regínu Guðjónsdóttir fra Steinsbæ sem lést á sjúkrahúsi Selfossi 2014.

þriðjudagur, 18. apríl 2023

Uppsagnir hjá Sveitarfélaginu Árborg

 


Í dag var 57 starfsmönnum sagt upp störfum hjá Sveitarfélaginu Árborg vegna fjárhagsvanda sem sveitarfélagið hefur ratað í vegna mikillar fjölgunar íbúa og uppbyggingu innviða á síðustu árum. Skuldir sveitarfélagsins eru miklar og uppsagnirnar einn liður í þeirri viðleitni að rétta við fjárhaginn, ásamt sölu eigna og lóða.

miðvikudagur, 12. apríl 2023

Sveitarfélagið Árborg í fjárhagsvanda


Sveitarfélagið Árborg skuldar 28 miljarða í kjölfar fordæmalausrar fjölgunar íbúa á undanförnum árum og uppbyggingu innviða sem því fylgir. Þetta kom fram í fréttum RUV í gær. Boðað hefur verið til íbúafundar í dag vegna stöðunar sem komin er upp hjá Sveitarfélaginu. Búist er við miklum hagræðingaraðgerðum á næstu misserum.