Þorleifur Kolbeinsson var kaupmaður á Stóru Háeyri á Eyrarbakka og landsþekktur á sínum tima. Hann efnaðist vel og á síðari tímum gekk hann undir nafninu Þorleifur ríki.
Þorleifur var fæddur í Brattholtshjáleigu 6. júní 1798 í mikilli fátækt og ólst upp í þeirri vesöld og ómegð sem einkenndi kotbúskap á þessari öld. Þorleifur var vesældlegur í vexti og lítill bógur til erfiðisvinnu, þá er hann var seldur á barnsaldri í vistarbönd á hina ýmsu bæji við hin kröppustu kjör.
Einhverju sinni eftir fermingu var Þorleifur sendur sem vikapiltur til Jakops bónda í Skálholtshrauni og eftir árið falaðist Jakop eftir því við Þorleif að hann yrði hjá sér annað ár og bauð honum 8 dali í kaup. þá sagði Þorleifur "Þá á ég eitthvað inni hjá þér fyrir liðna árið" Jakop sagði honum þá að ekki hafði verið um það samið. Þorleifur gekk nú eftir því við hreppstjórann að fá eitthvað fyrir sinn snúð en sagði sem var að ekki hafi verið samið um kaupið fyrir hið liðna ár. Jæja sagði hreppstjórinn- hafðu þá heimsku þína í kaup. Þorleifur lét það aldrei henda síðan að ráða sig til vinnu án þess að vera búinn að semja um kaupið fyrirfram, eða eins og hann sagði sjálfur "Á engu árskaupi græddi ég meira en þessu"
Árið 1833 fékk Þorleifur Stórahraun á Eyrarbakka til ábúðar og bjó þar til ársins 1841 en þá keypti hann Stóru Háeyri á Eyrarbakka með öllum hjáleigum þeim er jörðinni fylgdu.
Heimild: Útvarpsþáttur á RUV
Engin ummæli:
Skrifa ummæli