Veðrið á Bakkanum

https://www.windfinder.com/forecast/eyrarbakki

laugardagur, 2. nóvember 2024

Barnaskólinn á Eyrarbakka

Í byrjun árs 2022 var kennslu hætt í gamla barnaskólahúsinu á Eyrarbakka eftir að mygla greindist í húsnæðinu. Nú er unnið að áætlun um að gera við húsnæðið sem er að hluta til friðað og þar að auki merkur menningararfur þorpsins. Á heimasíðu Árborgar er hægt að leggja inn hugmyndir um þá starfsemi sem gæti verið í Húsinu í náinni framtíð.

sunnudagur, 27. október 2024

Sundvörðurnar fornu

Sundin á Eyrarbakka eru einkum þrjú. Þ.e. "Rifsós" sem er austast (Mundakotsvarða). það var oft ófært þegar lágsjávað var, og einhver alda úti fyrir. Næst er sund fyrir vestan þorpið, sem nefnist "Einarshafnarsund" og  oft var notað sem þrautalending á Eyrarbakka, en þar urðu eigi að síður sjóslys, þegar mjög lágsjávað var, eða undir og um stórstraumsfjöru. Þar fyrir vestan er sund er heitir "Bússa" eða "Bússusund", (Sundvörðurnar vestast) en var lítið notað fyrir fiskibáta, nema ef sérstaklega stóð á ládeyðu, því ef brim var, gekk hafaldan að nokkru leyti á það flatt eða yfir það, en þetta sund er einna dýpst og breiðast, og stefna þess þannig, að aldan gekk yfir það. Það var notað til innsiglingar verslunarskipana (Skonnorturnar voru kallaðar "Bússur") meðan þau komu til Eyrarbakka, og aldrei nema að brimlaus sjór væri. Eftir að vélbátaútgerð hófst var það notað í meira mæli og urðu þar stundum skæð sjóslys.

Heimild: Sigurður Þorsteinsson í Sjómannablaðinu Víkingi 1.tbl.1950

Sundvörðurnar voru endurbyggðar á síðasta áratug síðustu aldar. 

Þeir kölluðu það "Landflugur"

Það dró heldur betur til tíðinda á Bakkanum í byrjun mars 1950. Þann 1. og 2. mars hafði verið foráttubrim á Eyrarbakka með strekkings sunnanátt. Urðu menn þess þá varir að fisk var farið að reka í talsverðu magni á fjörurnar. Þegar farið var að gefa þessum reka frekari gætur kom það í ljós að lygnan inn af brimgarðinum var vaðandi í fiski sem óð lifandi á land og menn gogguðu hann hreinlega í fjöruborðinu. "Öfluðu" menn nálega  200 rígaþorska án þess að setja út bát eða veiðarfæri. Bakkamenn kölluðu þetta "landaflugur" og sennilegast þótti að fiskitorfan hafi verið á eftir síli sem skolaði inn fyrir brimgarðinn. Ekki er vitað til þess að sambærilegt atvik hafi orðið síðan.


Heimild: Brim.123.is 

mánudagur, 23. september 2024

Þorleifur hóf ferilinn sem vikapiltur

 


Þorleifur Kolbeinsson var kaupmaður á Stóru Háeyri á Eyrarbakka og landsþekktur á sínum tima. Hann efnaðist vel og á síðari tímum gekk hann undir nafninu Þorleifur ríki. 

Þorleifur var fæddur í Brattholtshjáleigu 6. júní 1798 í mikilli fátækt og ólst upp í þeirri vesöld og ómegð sem einkenndi kotbúskap á þessari öld. Þorleifur var vesældlegur í vexti og lítill bógur til erfiðisvinnu, þá er hann var seldur á barnsaldri í vistarbönd á hina ýmsu bæji við hin kröppustu kjör.


Einhverju sinni eftir fermingu var Þorleifur sendur sem vikapiltur til Jakops bónda í Skálholtshrauni og eftir árið falaðist Jakop eftir því við Þorleif að hann yrði hjá sér annað ár og bauð honum 8 dali í kaup. þá sagði Þorleifur "Þá á ég eitthvað inni hjá þér fyrir liðna árið" Jakop sagði honum þá að ekki hafði verið um það samið. Þorleifur gekk nú eftir því við hreppstjórann að fá eitthvað fyrir sinn snúð en sagði sem var að ekki hafi verið samið um kaupið fyrir hið liðna ár. Jæja sagði hreppstjórinn- hafðu þá heimsku þína í kaup. Þorleifur lét það aldrei henda síðan að ráða sig til vinnu án þess að vera búinn að semja um kaupið fyrirfram, eða eins og hann sagði sjálfur "Á engu árskaupi græddi ég meira en þessu"


Árið 1833 fékk Þorleifur Stórahraun á Eyrarbakka til ábúðar og bjó þar til ársins 1841 en þá keypti hann Stóru Háeyri á Eyrarbakka með öllum hjáleigum þeim er jörðinni fylgdu.


Heimild: Útvarpsþáttur á RUV

laugardagur, 14. september 2024

Barnaskóli á Eyrarbakka í 172 ár

 


 

Tvö ár síðan nýjar skólastofur voru teknar í notkun við hlið þriðja elsta skólahússins á Bakkanum.


Barnaskólinn á Eyrarbakka var stofnaður föstudaginn 25 oktober 1852. Skólahúsið var byggt fyrir samskotafé almennings í héraðinu. Forgöngu fyrir þessari skólastofnun höfðu þeir sr. Páll Ingimundarson í Gaulverjabæ, Guðmundur Thorgrímsson verslunarstjóri á Eyrarbakka og Þorleifur Kolbeinsson á Háeyri sem þá var hreppstjóri Stokkseyrarhrepps.


Undirbúningur fyrir stofnun barnaskóla á Eyrarbakka hafð staðið um nokkur misseri og menn í héraðinu sem aðrir landsmenn hvattir til að leggja þessu góða máli lið og kom það því hvatamönnum undarlega fyrir sjónir að aðeins Árnesingar léðu þessu máli lið, en þó með nokkrum undantekingum. Þessum hugmyndum um stofnun barnaskóla fengu mikinn mótbyr frá 41 bónda í héraðinu sem undirskrifuðu skjal þann 16.apríl 1851 þar sem fyrirhugaðri stofnun var mótmælt og afsagt að styrkja til hennar eða að láta börn sín í skólann og þá einkum ef ekki yrði hjá því komist að taka af opinberu fé rentu-sveitarkassans til að reka skólann.

En þrátt fyrir þessa mótspyrnu bændanna var skólahúsið reist að Háeyri, timburhús sem rúmaði 30 nemendur auk kennarastofu og kostaði nálega 500 kr.(rbd) Þess má geta að Eigendur Lefolii verslunar og margir mætir Árnesingar styrktu rekstur skólans fyrsu árin.

Heimild:Þjóðólfur 9.apr.1853

Ps. Bændurnir 41 hættu fljótlega að sýna opinbera andstöðu við skólastofnunina,enda öllum einsýnt að þetta væri mikið framfara skref.


Hér er þó ekki alveg rétt með að aðeins Árnesingar hafi stutt skólastofnunina því stuttu eftir að bréfritari þjóðólfafs hafði byrt bréf það sem ofangreindar upplýsingar eru byggðar á barst skólanum styrkur frá fólki utan Árnessýslu og byrtist í 5 árg.þjóðólfs bls 75 og 131


Styrkjendur voru þessir:




Jón Guðmundsson lögfræðingur Reykjavík. ..........10 rbd.

Dr. Jón Hjaltalín Kaupmannahöfn...........................5 rbd.

P.Gudjonsen organisti Reykjavík...........................5 rbd.

Sk. Thorarensen héraðslæknirMóeyðarhvoli............4 rbd.

L. A. Knudsen kaupmaður Hafnafyrði.....................3 rbd.

M. J Matthiesen kaupmaður Hafnafyrði...................3 rbd.

sr.Páll Matthiesen Dvergverðarnesi.........................2 rbd.

Egill Jónsson bókbindari........................................1 rbd.

pr.f. sr. Ásmundur Jónsson....................................4 -

Styrkir frá hreppum í Árnessýslu utan Stokkseyrarhr:

 

Hraungerðishreppur.


 dbr. Árni Magnússon Stóraármóti............................10 rbd.

TH. Gudmundsen kamerráð Hjálmholti........................8 -

sr. Sigurður Thorarensen Hraungerði...........................2 -

Þormóður Bergsson Langholti....................................2 -


Bjarni Símonsson kirkjueigandi Laugardælum..............1 -

Ölvershreppur.


sr.Jón Matthiesen Arnarbæli.......................................4 -

Magnús Sæmundsson Auðsholti.................................2-

Guðmundur Jónsson Núpum.......................................1-


Selvogshreppur.


sr.Þorsteinn Jónsson Vogsósum..........................samt.6 -

Guðmundur Magnússon Minnahofi................................1 -

Einar Hafliðason Helgastöðum......................................1 -

Filippus Stefánsson Vatnsdal........................................1-

Jón Jónsson Gaddstöðum............................................." 32 sk.

Guðmundur Pétursson Minnahofi..................................." 16 sk.

Börn sr.B. Jónssonar á Stórafljóti...................................2 -


Grímsneshreppur.


 Jón Halldórson kirkjueigandi Búrfelli..............................3 -

Gísli Guðmundsson Gíslastöðum...................................5 -


Biskupstungnahreppur.


 sr.Björn Jónsson Stórafljóti...........................................2 -

Eyjólfur Guðmundsson hreppstj, Auðsholti......................1 -

Eiríkur Jónsson bóndi Skálholti......................................2 -

Helgi Gíslason bóndi Iðu................................................" 24sk


Hrunamannahreppur.


 J. K. Briem prófastur Hruna..........................................5-

Jón Jónsson bóndi í Hörgsholti,.....................................2-

Jón Halldórsson bóndi Efraseli.......................................1-

dbr.Jón Einarsson á Kópsvatni.......................................3-

Einar Jónsson hreppstj. Galtarfelli..................................." 64sk

Alþ.m. Magnús Andresson Syðra-Langholti.....................4


Skeiðahreppur.


Ófeigur Vigfússon hreppstj. Fjalli....................................5 -


Sandvíkurhreppur.


 Snorri Jónsson Selfossi...............................................2-

Jón Símonarson ingismaður Selfossi.............................." 48sk,

Gaulverjabæjarhreppur.


 33 gefendur samtals...............................................44 rbd 88 sk,*

 Þorvarður Jónsson hreppstj. Sviðnugörðum.................4 -

(*dönsk mynt sem notuð var á þessum tíma)


Gjafir úr Rángárvallasýslu samtals.9 rbd


sr.Markús Jónsson Odda

Hannes Bjarnason bóndi á Unuhól

Brynjólfur Stefánsson bóndi Kirkjubæ

sr.Guðmundur Jónsson á Stóruvöllum.

Gjafir úr Skaftafellssýslu samt. 7 rbd.


 sr.Gísli Thorarensen á Felli

Sýsl,m. Árni Gíslason Heiði

Aðrar árlegar gjafir og áheit. 41 rbd 51 sk.


Gísli Magnússon kennari Reykjavík

sr. Jakop Árnason Gaulverjabæ

sr. Sigurður Thorarensen Hraungerði.

J.K. Briem Hruna

dbr.Árni Magnússon Stóra - Ármóti

V.Finsen bæjarfóg. Reykjavík

Sveinn Eiríksson Hvaleyrarkoti

Guðmundur Þorsteinsson Hlíð Árn.

Guðmundur Guðmundsson Króki Árn.

Jón Guðmundsson ritstj. Reykjav.


Brim.123.is 

Bjarni Vigfússon

 

Bjarni Vigfússon smiður frá Lambastöðum í Flóa starfaði á Eyrarbakka veturinn 1911-1912 við skíðasmíðar úr ask og þóttu skíðin vel vönduð og vakti þessi framleiðsla nokkra eftirtekt heimamanna, en hún fór fram í svonefndu "Prestshúsi". Skíðin voru smíðuð að norskri fyrirmynd og með tábönd af sama sniði. Ekki fara þó sögur af því hvort Bjarni hafi gert góðan díl í þessu snjóléttasta héraði landsins.

Brim.123.is 

Ráðið í vegavinnu 1897

 


Þjóðólfur, 16. júlí 1897. 49. árg. 34. tbl. , bls. 187:

Erlendur Zakaríasson vegaverkstjóri útskýrir hér hvernig hann velur menn í vegavinnu en færri komast þar að en vilja.

Ráðning í vegavinnu
Í 29. - 30. tölubl. Þjóðólfs þ. á., stendur fréttapistill frá Eyrarbakka, sem aðallega er þess efnis, að skýra almenningi frá, hvernig ég hagi ráðningu verkamanna þeirra, sem eru í vegavinnunni með mér frá Eyrarbakka:
Í greininni stendur: " Það sem einkennir þessa vinnuveitingu er það, að hana fá ekki nema efnabetri mennirnir. Að undanteknum einum manni, sem er úr þessu plássi í vegagerðinni, eru það ýmist lausamenn, iðnaðarmenn eða þjónar þeirra".
Þessir menn sem nú eru í vegagerðinni af Eyrarbakka, eru flestir búnir að vera lengi við vinnuna, og eru valdir menn að dugnaði.
Þegar ég réði þá, þekkti ég ekki ástæður þeirra, en leitaði mér upplýsinga um, hvort þeir væru duglegir menn til vinnu; þegar ég fékk það svar, að þeir væru það, þá lét ég mér það nægja.
Það getur hver maður séð, sem er með heilbrigðri skynsemi, - ég tala ekki til höfundar greinarinnar - að eftir öðru mátti ég ekki fara en þessum vitnisburði, enda hefði það verið fjarstæða að neita þessum mönnum um vinnu, þó ég hefði vitað, að þeir væru bjargálnamenn, - meira eru þeir ekki. Þess ber líka að geta að ég hef haft fleiri menn úr þessu umtalaða plássi, og orðið að víkja þeim úr vinnunni fyrir óreglu eða leti. Þó vil ég geta þess, að einum manni, sem var í vinnunni vorið og haustið í fyrra, vísaði ég ekki burt fyrir þessar ofantöldu ástæður, heldur fyrir það, að hann var ekki ánægður með kaupið, enda var það ekki nóg fyrir hann, þar sem hann var fjölskyldumaður og langt frá heimili sínu. (Fyrir tveimur árum byrjaðir ég að taka menn í vinnu vorið og haustið, til þess, að bændur sem búa næst vinnunni, gætu haft eitthvað gott af henni. En ég borga þeim mönnum mikið lægra kaup, sökum þess, að veðurátta er þá oft verri, og þá afkasta menn minna). Þessi maður falaðist eftir vinnunni fyrir þetta yfirstandandi sumar, fyrir allan tímann, en ég gat það ekki, sökum þess, að ég varð að fækka verkamönnum, af því verkið er minna sem gera á í sumar, heldur en það sem unnið var í fyrra, og ennfremur vegna þess, að miklu fleiri bændur föluðu vinnu fyrir sig eða menn sína fyrir haustið og vorið, heldur en áður höfðu verið.
Þessi maður, sem hér er talað um, er víst annar maðurinn, sem talað er um, að ég hafi vísað í burt úr vinnunni, og álít ég því fullsvarað með hann.
Neðar í greininni stendur: "Sem dæmi þessu til sönnunar má telja, að nú í ár voru 2 menn hér í plássi sviptir vinnunni, sem að allra dómi eru bestu vinnumenn, - en þeir voru fátækir". Hér að framan hef ég svarað þessu hvað öðrum manninum við kemur, að ég skal játa, að hann getur talist meðalmaður til vinnu en ekki meira.
Hvað hinum viðvíkur, þá verð ég að telja hann í þeim flokki, sem ég hef orðið að láta fara úr vinnunni. Hann álítur máské sjálfur, að framkoma hans við félaga sína hér, bæti fyrir honum, en ég verð að álíta, að það geti ekki orðið, þó hún sjálfsagt sé góð.
Síðar í greininni stendur: "En í stað þess var tekinn maður af einum verslunarstjóranum hér í hreppi, og einum af efnabetri mönnum hér boðin atvinna". Ástæðan til þess, að ég tók þennan mann var sú, að í vor hættu 8 menn við að fara í vinnuna, sem ráðnir voru, svo ég bauð þessum manni vinnu, af því að ég þekkti hann að því að vera duglegan mann, og standa langt fyrir framan þá, sem voru látnir fara.

Niðurlag greinarinnar er þannig orðað, að ekki er mögulegt að svara því, en sé það rétt skilið, eftir því sem beinast liggur við að taka það, þá verður það mál ekki sótt á þessu þingi, ef ég annars virði það svo mikils að svara því nokkru.
Ég hef verið, og er enn, ókunnugur í þessu plássi (Eyrarb.) og veit lítið um efnahag manna, enda er ég viss um, að úr því yrði mesta þvæla og vitleysa, sem orðið getur, ef nokkurt úrval ætti að eiga sér stað í þá átt. Ég skal taka það fram hér, að allt svo lengi, að ég er hér við þessa vinnu, og ræð fólk til hennar, mun ég ekki haga mér öðruvísi hér eftir, en ég hef gert að undanförnu, sem sé að taka duglega manninn fram yfir hinn óduglegri, hvort sem hann er fátækari eða ekki, sökum þess, að ég álít það skyldu mína gagnvart verkinu, sem ég er settur yfir, en reyni að forðast að svo miklu leyti sem mér er unnt, að láta hreppapólitík komast þar að.
Ég skal leyfa mér að geta þess, að ég læt hér staðar nema með ritdeilu um þetta efni.
Við Flóavegagerðina 1. júlí 1897
Erl. Zakaríasson


Heimild.Vegagerðin./Brim.123.is 

Upphaf Eyrarbakkavegar

 


Ísafold, 8. janúar, 27. árg, 1. tbl., bls. 2 (1900)

Hér er birt greinargerð um Flutningabrautina upp Flóann, sem formaður þeirrar vegagerðar, Erlendur Zakaríasson, samdi fyrir landshöfðingja. Lýsingin á þessari vegagerð frá Eyrarbakka og Stokkseyri upp að Ölfúsárbrú er bæði ítarleg og fróðleg.

Flutningabrautin upp Flóann.
Það er allmikið mannvirki, brautin sú, frá Eyrarbakka upp að Ölfusárbrú, er unnið hefur verið að tvö sumur undanfarin og lokið var við í haust.
Hefur formaður þeirrar vegagerðar, hr. Erlendur Zakaríasson, samið og sent landshöfðingja ítarlega skýrslu um það verk, er hér birtist nálega orðrétt, með því að þar er ýmislegur fróðleikur, er gæti orðið ýmsum góð bending, bæði þeim, er við þann veg eru riðnir og öðrum.
Byrjað var að leggja veginn frá Eyrarbakka, rétt fyrir framan Hópið (vatn milli Eyrarbakka og mýrarinnar) fyrir austan Steinskot, og haldið upp og austur hraunið að Litlahraunsstekk, og þaðan í beina stefnu austan til við Sandvíkurnar og upp að Ölfusárbrúnni.
Landið, sem þessi vegur liggur eftir, er fyrst hraun, að Litlahraunsstekk. Þaðan og upp að svonefndum Geirakotsskurði mest blaut mýri, en þaðan og upp að Ölfusárbrú móar og þurrlend mýri.
Landslagið á þessu svæði er mjög slétt, og aðeins dálítill jafn halli upp að Ölfusárbrúnni.
Við Ölfusárbrúna er landið 16 fetum hærra en þar sem byrjað var á Eyrarbakka.
Öll vegalengdin er að kalla réttir 6000 faðmar eða 1 1/2 míla. Eftir þessu er hallinn sem næst því 1:700.
Á þessum vegi eru 23 þverrennur frá 5-12 feta langar.
Það var miklum erfiðleikum bundið að vinna þetta verk, af þeim ástæðum, að allt efni vantaði í yfirbygginguna meira en helming af leiðinni.
Grjóti í yfirbygginguna og þverrennurnar var ekið frá báðum endum að vetrinum til, mest í akkorð vinnu og að nokkru leyti fyrri veturinn í tímavinnu.
Vegalengdin að aka grjótinu 500-1800 faðmar; 8-18 krónur borgaðar fyrir hvern teningsfaðm.
Verkinu var þannig háttað, að hliðveggir vegarins voru hlaðnir úr sníddu og sumstaðar þaktir með torfi og hafður 4 feta breiður bekkur beggja megin við veginn. Skurðirnir fram með veginum 7-10 feta breiðir. Breidd vegarins 12 fet.
Í yfirbygginguna var mulið grjót 10" þykkt alla leið, nema í 450 föðmum efst við Ölfusárbrúna; þar var hafður tómur ofaníburður (möl og leir).
Ofan á mulninginn voru látnar þunnar mýrarflögur, svo ekið stórgerðum sandi þar ofan á (mjög þunnt) upp að miðju. Þeim sandi varð að aka neðan af Eyrarbakka. Lengstur akstur 3 1/2 klukkustund með ferðina.
Frá miðju og upp úr, sem mulningurinn náði, var tekinn leir úr flögum og hafður yfir mulninginn. Það verður dálítil for á veginum fyrsta árið, en ekki djúp því leirinn er þunnur. Sama efni var haft á Hellisheiði austan til og hefur reynst vel.
Þessi vegagerð hefur kostað um 38.000 krónur eða 6,33 kr. faðmurinn upp og ofan.
Á svæðinu frá Litlahraunsstekk og upp að Stekkunum kostaði faðmurinn um 8,75 kr.
Þessi vegur hefur því orðið dýrastur þeirra vegakafla, er hér hafa verið lagðir, fyrir utan Kambaveginn og eru margar ástæður til þess: 1, að efni hefur orðið að sækja langan veg; 2, að veðrið hefur verið óhagstætt bæði sumrin, einlægar rigningar; 3, að kaupa hefur orðið land undir veginn fyrir nokkuð hátt verð, 1.100 kr.
Bæði sumrin hafa unnið að þessu verki 40-60 menn, og 18-22 vagnhestar og 8-10 vagnar.
Kaup verkamanna kr. 2,60-3,00; unglingar kr. 1,60-2,25; menn sem unnið hafa vorið og haustið kr. 2,25-2,35.
Þeim sem áttu landið undir veginn verður fæstum sagt það til hróss, að þeir hafi verið vægir í kröfum með borgun fyrir landið. Það leit svo út um suma, að þeir vildu gera sér það að féþúfu, með því að heimta peninga fyrir hvaðeina, og kenndu vegagerðinni um allt illt, sem fram við þá kom, nærri því um rigninguna, sem var í sumar.
Ég vil leyfa mér að geta þess hér, að það ríður á, að hirða vel um þverrennurnar að vetrinum til á svæðinu frá Litlahraunsstekk upp að Stekkum, að ekki sé klaki í þeim, þegar hláku gerir, svo vatnið geti komist í gegnum þær, en ekki hlaupið fram með veginum að austanverðu og orðið þar af leiðandi of mikið og runnið yfir veginn.
Til bráðabirgða setti ég mann til að gæta þeirra í vetur, með 17 króna borgun yfir tímann.
Ennfremur þarf að líta eftir á haustin á þessu svæði, að stíflur, sem rifnar hafa verið úr af sláttufólki, verði umbættar á haustin.
Ennfremur ætti að banna mönnum að stífla vegaskurðina, eins og þeir gerðu í vor, til að veita á engjar sínar; það skemmir veginn, þegar vatnið stendur langt upp í vegahliðarnar, og þegar annaðhvort fara úr stíflur af of miklum vatnsþunga eða þær eru aldrei teknar úr, fyllast skurðirnir af hnausum og flytja þar af leiðandi minna vatn.
Að lokum vil ég leyfa mér að geta þess, að áríðandi er halda þessum mulningsvegum (púkkvegum) við (eins og öllum vegum) með því að bera þunnt lag af ofaníburði ofan á, þar sem mulningurinn verður ber og fer að losna; ef það er gert verður vegurinn nærri óbifandi.
Frá flutningabrautinni var lagður (ólæsileg tala) álna breiður og rúmlega 760 faðma langur vegur ofan undir Hraunsárbrýrnar, áleiðis til Stokkseyrar.
Þeir sem kostuðu þennan veg voru kaupmennirnir á Stokkseyri, sýslusjóður Árnessýslu og Stokkseyrarhreppur.
Þessi vegur er mjög vel gerður, þeim til sóma sem unnu verkið, og lögðu fram fé til þess.
Sú vegagerð kostaði sem næst 3.000 krónur.
Verkstjóri var þar Ketill Jónasson.
Sömuleiðis var gerður vegur frá neðri enda akbrautarinnar að verslunarhúsum Lefolii. Sú verslun og hreppurinn kostaði það verk.
Ekki verður sagt hið sama um þennan veg og Stokkseyrarveginn, að hann sé vel gerður. Það er öðru nær. En öðru verður ekki um kennt en of miklum sparnaði frá þeirra hálfu, sem kostuðu hann.
Kaupa þurfti land undir veginn frá Stóru Háeyri fyrir nærfellt 800 krónur.

 

Heimild: Vegagerðin./ Brim.123.is 

miðvikudagur, 11. september 2024

Geymsluskúr við Stað

Geymslupláss fyrir starfsemi samkomu og íþróttahúsins hefur verið að skornum skammti, en nú er verið að bæta úr því að nokkru leyti með því að tengja 20 feta geymslugám við húsið.
Mynd: Sunnanpósturinn 

fimmtudagur, 22. ágúst 2024

Nýr stigi upp á sjógarð

 

Stigi við Stað
Nýr stigi hefur verið reistur upp á útsýnispallinn við Stað á Eyrarbakka. Þarna var áður stigi áratugagamall sem var rifin fyrir nokkrum árum vegna fúa.

Starfsmenn Eignadeildar reistu þennan prýðilega stiga núna í vikunni og var þessu framtaki vel fagnað af þorpsbúum.

Mynd: Sunnanpósturinn 

mánudagur, 8. júlí 2024

Sundlaugin á Stokkseyri opnar eftir endurbætur.

Sundlaugin á Stokkseyri sem hefur verið lokuð allann síðasta vetur eftir að í ljós kom að sundlaugarskelin var ónýt af ryði hefur nú opnað eftir gagngerar endurbætur. Vinna við laugina hófst í vor þegar snjóa leysti og hafa fjölmargir iðnaðarmenn komið að málum. Hér eru starfsmenn frá Seglagerðinni Ægi að leggja lokahönd á nýjan sundlaugardúk.

Mynd: eignadeild@arborg.is 

sunnudagur, 26. maí 2024

Krían komin á Bakkann

 Fáeinar kríur voru að hreiðra um sig í kríuvarpinu í dag og er frekar sein fyrir í ár.


Krían hefur átt undir högg að sækja síðasta áratuginn vegna fæðuskorts en einnig hefur hún verið töluvert rænd yfir varptímann af vörgum, einkum tvífætlingum.

miðvikudagur, 3. apríl 2024

Römpum Ísland í Árborg

"Römmum Ísland" verður í Árborg í sumar að rampa við stofnanir sveitarfélagsins. Bætt aðgengi og öruggar flóttaleiðir eru mikilvægar þar sem fatlaðir þurfa að sækja þjónustu og eða vinnu.

Mynd: Sunnanpósturinn 

þriðjudagur, 26. mars 2024

Þakviðgerðir á Bakkanum þessa dagana

Verið er að skipta um þakjárn á samkomuhúsinu Stað og leikskólanum Brimveri. Það er Nýtt þak ehf sem vinnur verkið fyrir Eignadeild Árborgar.

Mynd: Sunnanpósturinn 

fimmtudagur, 29. febrúar 2024

Worldclass stækkar

Uppsteypa kominn vel á veg á nýrri viðbyggingu við húsnæði Worldclass og Sundhallar Selfoss. Bílastæðum fækkar.

Mynd: Sunnanpósturinn 

mánudagur, 26. febrúar 2024

Lagfæring á sundlaug Stokkseyrar

 

Byrjað er að lagfæra sundlaug Stokkseyrar. 

Búið er að grafa frá lögnum og nú tekur við hreinsun á gamla stálinu áður en lagnir verða endurnýjaða og nýtt stál klætt utan á byrðinginn og að lokum nýr dúkur.

Áætlað er að framkvæmdum ljúki eftir miðjan júní nk.

sunnudagur, 25. febrúar 2024

Jónsmessuhátíðin 2024

 

Jónsmessuhátíðin á Eyrarbakka verður haldinn 21-23 júní næstkomandi. Það er ungmennafélagið sem heldur hátíðina í ár. 

þriðjudagur, 20. febrúar 2024

Brim á Bakkanum

 Það var töluvert brim á Bakkanum í dag og skúraskýin dormuðu úti fyrir ströndinni.


Veðurspáin gerir ráð fyrir bjartviðri um helgina og kólnandi, en hlýnar aftur í næstu viku með rigningu.

Brim á Bakkanum 


sunnudagur, 18. febrúar 2024

Ljósleysið plagar



Mikið vantar uppá að gatna og gangbrautarlýsingu sé viðhaldið eins og góðu hófi gegnir. Á Eyrarbakka eru víða sprungnar perur á ljósastaurum og hefur svo verið í allann vetur með tilheyrandi hættu á alvarlegum slysum, sérstaklega þar sem gangbrautir eru suma hverjar hulin myrkri.

Það er sveitarfélagið Árborg sem ber ábyrgð á lýsingu gatna í þorpinu.

þriðjudagur, 13. febrúar 2024

Þegar lífið var saltfiskur

Saltfiskverkun var i fullum gangi í Frystihúsinu, næsta húsi inn af humarvinnslunni sumarið 1977

Dagblaðið spjallaði við

Stelpurnar sem ætluðu til Akureyrar að ná í stráka.  

Einnig er mynd af:
 Aðalheiði Sigfúsdóttur, Astu Halldórsdóttur og Ástu Erlendsdóttur þar sem þær voru að umstafla saltfiski

https://timarit.is/page/3070447?iabr=on#page/n8/search/Eyrarbakka%20/inflections/true


mánudagur, 12. febrúar 2024

Set til Sölu

 Fyrirtækið Set ehf á Selfossi, sem sérhæfir sig í fjölbreyttri starfsemi á lagnasviði, hefur verið sett í söluferli. 

Nánar á Sunnlenska.is 

sunnudagur, 11. febrúar 2024

Hlýnandi veður framundan

 Í dag kom sólin upp kl.09:33 og vaxandi máni á himni. Gott veður er á Árborgar svæðinu og hitastigið að nálgast 1° C  /8 me/sek og léttskýjað. 

Heldur hlýrra veður þegar líður á vikuna og ætti það að hjálpa Suðurnesjamönnum sem hafa þurft að hýrast í hálfköldum húsum sínum undanfarna daga eftir að glóandi hraunið tók í sundur einu hitaveituæðina sem þjónaði öllu byggðarlaginu.


Spáin fyrir Eyrarbakka
Sun 11/2  🌤 Léttskýjað 0°/-2°
Man 12/2 ☁️ Skýjað 3°/1°
Þri 13/2   ⛅️ Hálfskýjað 1°/-8°
Mið 14/2  🌥 Að mestu Skýjað -2°/-3°
Fim 15/2  ☁️ Skýjað  2°/-3°
Fös 16/2  ☁️ Skýjað 2°/1°
Lug 17/2  🌧 Rigning 5°/2°
Sun 18/2  🌨 Slydda 5°/2°
Man 19/2 ☁️ Skýjað  6°/2°
Þri 20/2   🌥 Að mestu Skýjað 5°/0°

mánudagur, 5. febrúar 2024

Heitavatnskortur í Árborg

 Í kuldatíðinni er farið að bera á heitavatnsskorti hjá Selfossveitum og íbúar hvattir til að fara sparlega með vatnið. Útisundlaug verður lokað tímabundið á meðan ástandið er krítiskt. 


sunnudagur, 4. febrúar 2024

Mun vatnið finnast?

Selfossveitur:
Starfsmenn Ræktunarsambands Flóa og Skeiða keppast nú við að finna heitt vatn við bakka Ölfusár fyrir neðan Hótel Selfoss. 

Litlahraun óboðlegt

Stærsta fangelsi landsins er óboðlegt — segja stjórnendur, fangar og opinberir eftirlitsaðilar. Stór hluti fanga lendir ítrekað í fangelsi og margir þeirra kvarta undan skorti á endurhæfingu. Um helmingur fanga situr inni vegna fíkniefnabrota, en refsivistin skilar ekki alltaf tilsettum árangri.

föstudagur, 2. febrúar 2024

Sjávarflóð við suðurströndina

 Dálítið er til af heimildum um sjávarflóð á Eyrarbakka í ýmsum annálum.

  1. 1316  Flæddi inn í allar fremri búðir á Eyrum - Gottskálksannáll
  2. 1343  Flæddi upp um allar búðir á Eyrum og skip ásamt mannskap fórust. - Skálholtsannáll.
  3. 1403  Flóð Eyrarbakka-Setbergsannáll.
  4. 1410  Flóð Sunnanlands-Setbergsannáll.
  5. 1540  Flóð Syðra - Setbergsannáll.
  6. 1621  Flóð Sunnan og suðvestan-Suðurnesjaannáll.
  7. 1630  Flóð suðvestanlands -Sjávarborgarannáll
  8. 1644  Flóð Vestur- og Suðvesturland Suðurnes, Sjávargangur, flóð og fyllingar. Tjón á
    skipum, sjóbúðum, túnum, hjöllum og
    húsum.-Setbergsannáll.
  9. 1695 Flóð Syðra. Flæður. Tún, jarðir og skip spilltust.-Grímsstaðaannáll
  10. 1706  Flóð Suðurland, Mikill stormur, mörg skip brotnuðu bæði norðan lands og sunnan. Einnig brotnuðu kirkjur fyrir norðan og hús og skaði varð á heyi.- Fitjaannáll.
  11. 1733  Flóð Suðurland, Skipbrot af veðri og sjógangi- Hítardalsannáll
  12. 1746 Flóð Suðurland, - Íslands árbók
  13. 1766  Flóð Syðra, Stórviðri og sjávargangur. Sjórinn gekk 10 föðmum lengra á land en elstu menn mundu - Íslands árbók
  14. 1772  Flóð Suðurland, Sjóarólga og brimgangur, sjávaryfirgangur í mesta lagi. Braut víða fjörur og kamba, fjöldi skipa brotnaði víða um land. - Íslands árbók.
  15. 1779  Öskudagsflóðið Stokkseyri, Stórflóð á Eyrarbakka. Stóra-Hraun varð umflotið og fiskur fannst í kálgarði ofan við húsið. Margar jarðir skemmdust. Skipskaðar. - Árbækur Espólíns.
  16. 1784 Eyrarbakki Sjógangur og flóð. Landbrot.- Saga Eyrarbakka. 
  17. 1787 Eyrarbakki Flóð. Flaut umhverfis búðirnar. Landbrot.- Saga Eyrarbakka. 
  18. 1795  Suðurland Stórflóð og sjávargangur. Hey sópuðust burt og skip skemmdust og brotnuðu. - Árbækur Espólíns.
  19. 1796 Suðurland Hafrót með brimi, sjávarágangur og stórfljóð. Jarðir skemmdust og fjölda skipa tók út og mörg mölbrotnuðu. - Espihólsannáll
  20. 1814  Syðra Ofsarok og sjávargangur. Skaði á húsum og skipum.- Endurminningar Gyðu Thoroddssen.
  21. 1830 Þorramrælsflóðið Eyrarbakka og Stokkseyri, Landbrot á bökkum framan við kambinn.- Stokkseyringasaga.
  22. 1832 Stokkseyri og Eyrarbakka Flóð, flæddi í hús- Austantórur.
  23. 1838 Flóð Syðra Sjór gekk á land, braut skip og báta o.fl. - Annáll 19. alda
  24. 1865 í Flóanum, Flóð. Braut sjógarð og fiskiskip.Sjór gekk á land syðra á næturtíma. Braut skip og báta og gerði fleiri spellvirki.  Saga Eyrarbakka.
  25.  1867 Suðvesturland Ógurlegt sjávarflóð. Skip, hjallar, tún,  garðar og hús skemmdust- Suðurnesjannáll.
  26. 1870 Eyrarbakka Ofsaveður með flóði. Skemmdir í þorpinu og í rófnagarði Þorleifs á Háeyri.- Saga Eyrarbakka. 
  27. 1888  Mikið flóð suðvestanlands. Sjór gekk á tún, skemmdi þau og braut garða. Bátar brotnuðu, hús og skip skemmdust. Sjórinn tók fjárrétt fulla af fé og sópaði burt torfhúsi, bryggjur brotnuðu og hús færðist á grunni sínum. Líkt við stórflóðið 1867 - Suðurnesjaannáll.
  28. 1889 Sjór gekk yfir sjógarðinn á Eyrarbakka og skemmdi hann nokkuð. - Saga Eyrarbakka. 
  29. 1898  Eyrarbakka.  Ofsaveður. Flæddi yfir sjógarðinn á Eyrarbakka og í hús. Braut skip. Flæddi um götur Reykjavíkur, skaðaði bryggjur og skip.
  30. 1900 Eyrarbakki Rok og flóð. Löðrið gekk yfir sjógarðinn. Sleit upp báta á höfninni og braut. - Saga Eyrarbakka 
  31. 1903 Sunnanlands Skemmdir á bæjarhúsum og túnum í Herdísarvík. - óþekktur. 
  32. 1906 Suðuland, Ofviðri mikið um land allt. Sjór flæddi inn í Ölfusá og olli usla langt upp með ánni.
  33. 1913 Eyrarbakka og Stokkseyri, Ofsaveður og flóð. Braut víða skörð í sjóvarnargarðinn við Eyrarbakka og Stokkseyri. - Saga Eyrarbakka 
  34. 1916 Lognflóðið Eyrarbakka og Stokkseyri og Vík, Mikið brim, sjógarður brotnaði og tvö skip. Í Vík gekk sjór á land. - Saga Eyrarbakka.
  35. 1921 Stokkseyri, Bátar brotnuðu í útsynningsveðri og brimi. - Óþekktur 
  36. 1925 Eyrarbakka, Stokkseyri og Grindavík, Ofviðri og flóð. Braut sjógarða og skip. Sjór gekk hátt á land, eyðilagði hús, flæddi í fleiri og skaðaði jarðir. - Saga Eyrarbakka. 
  37. 1926 Eyrarbakka og Stokkseyri, Stórstreymt og mikið brim. 9 bátar náðu ekki höfn á Stokkseyri og Eyrarbakka. - Veðráttan /Suðvestanlands Stórflóð. Sjógarður brotnaði, flóðbylgja gekk á land, fé flæddi. - óþekktur. 
  38. 1932 Flóðbylgja gekk á land, tjón á túnum og kjallara - Veðráttan 
  39. 1936 Suðurland og víðar, Ofsaveður. Bryggjur, sjóvarnargarður, götur, bátar, hey, hús og önnur mannvirki skemmdust. Sums staðar flæddi langt upp á land.
  40. 1954 Þorlákshöfn Stórbrim skemmdi báta,  - Óþekktur Margs konar skemmdir á bátum, húsum og öðrum mannvirkjum. Sjór fór yfir brimvarnargarða og flæddi í kjallara. - óþekktur 
  41. 1963 Grindavík, Þorlákshöfn, Vík, Mikið sjávarflóð. Tjón á hafnarmannvirkjum, frystihúsi, fiskimjölsverksmiðju, vörugeymslum - Veðráttan. 
  42. 1970 Suðvesturland, Rok og sjávargangur. Skemmdir á bátum, höfnum, hafnargarði, húsum, vélum, matvælum, varnargörðum og túnum. Kindur og hænsni drukknuðu. Landbrot, rafmagnstruflanir. Sjór gekk langt á land.- Veðráttan 
  43. 1971 Grindavík og Stokkseyri, Mjög há sjávarstaða. Timbri skolaði í sjó og það hrundi úr hafnargarði sem var í byggingu. - Veðráttan 
  44. 1972 Suðvesturland, Grjót barst á land, bátar slitnuðu upp og fiskihús brotnaði. - Veðráttan. 
  45. 1973 Þorlákshöfn, Faxaflói, Bátar fórust. Óþekktur Grindavík Háflóð og hvassviðri. Bryggjur fóru á kaf.- Trausti Jónsson. 
  46. 1975  Suðvesturland  Eyrarbakka, Fárviðri Mikið tjón af sjávarflóði á Suðvesturlandi, mesta flóð síðan 1925. Sjóvarnargarðar, bátar og bryggjur skemmdust. - veðurskeytabók veðurathugunarmanns á Eyrarbakka. (Mikið foktjón á mannvirkjum og raflínum á EB)
  47. 1977 Suðurland Eyrarbakka, Stokkseyri Mikið sjávarflóð. Kjallarar fylltust af sjó, sjórinn braut einnig vegg eins húss og flæddi þar inn. Tjón varð einnig á bátum, túnum og girðingum. - Veðráttan ofl.
  48. 1984  Suðvesturland, Mikið tjón á mannvirkjum og bátum. Flæddi upp á land og í einhver hús. Landbrot. - Veðráttan. 
  49. 1985 Stokkseyri, Flotkví skemmdis. - Trausti Jónsson 
  50. 1990 Stórmflóðið Suðvesturland, skvinnsluhús og veiðarfærageymsla,
    íbúðarhús, vélar, áhöld, bryggjur, vegir,
    varnargarður og fjárhús skemmdust.
    Kindur og hross fórust. - Veðráttan (Mikið tjón var á Eyrarbakka í þessu veðri)

Heimldir: Veðurstofa Íslands skýrsla GEJ

Sunnanpósturinn

Sunnanpósturinn var mánaðarrit sem kom út 1835, 1836 og 1838. Það var prentað í Viðeyjarprentsmiðju árið 1835-36. Í ritinu voru fréttir, tilkynningar, greinar, frásagnir og kvæði. Í fyrstu var Þórður Sveinbjörnsson ritstjóri en síðar séra Árni Helgason.

Þórður var skipaður sýslumaður í Árnessýslu 1822. Árni var biskup í Skálholti 1304-1320.

1. Tölublað Sunnanpóstsins:

https://timarit.is/page/2013208#page/n0/mode/2up 

Veðurathuganir á Eyrarbakka

 Eyrarbakki - veðurstöð - upplýsingar

Nafn Eyrarbakki

Tegund Sjálfvirk veðurathugunarstöð

Stöðvanúmer 1395

WMO-númer 4038

Skammstöfun eyrar

Spásvæði Suðurland(su)

Staðsetning 63°52.152', 21°09.611' (63,8692, 21,1602)

Hæð yfir sjó 3.0 m.y.s.

Upphaf veðurathuguna 2005

Eigandi stöðvar Veðurstofa Íslands

Á Eyrarbakka hófust mælingar árið 1880, en úrkomumælingar lágu niðri á árunum 1911 til 1923. Upphaflega voru veðurathuganir einkaframtak á vegum Peter Níelsen í Húsinu og fleyri góðra manna. Árið 2013 lauk starfsemi mannaðar veðurstöðvar. Síðasti veðurathugunarmaðurinn var Emil Hólm Frímannsson fyrrum sjómaður á Eyrarbakka. 

laugardagur, 6. janúar 2024

EYRBEKKINGAR KVADDIR 2023

Óli Karlo Olsen 88 ára frá Einarhöfn. Foreldrar hans voru Peder Ragnvald Olsen Vidnes og Ingibjörg Gunnarsdóttir.

Sigrún Guðmundsdóttir 85 ára frá Sandvík. Foreldrar hennar voru Guðrún Jónsdóttir, húsfrú í Sandvík á Eyrarbakka, og Guðmundur Á. Böðvarsson.

Óli Einar Adolfsson 82 ára úr Mýrdal. Foreldrar hans voru Adolf Andersen og Kristjana Geirlaug Einarsdóttir.

Oddur Þorsteinsson 81 árs frá Sunnuhvoli. Eftirfarandi eiginkona hans er Sigríður Aðalsteinsdóttir. 

Bragi Leifur Hauksson 64 ára. Hann formaður tennisdeildar Þróttar og átti aldamótahús á Bakkanum. 

Sveinbjörn Birgisson 54 ára. For­eldr­ar hans voru Elín Mar­grét Sig­ur­jóns­dótt­ir og Birg­ir Svein­björns­son frá Merkisteini.